Spínat lasagna löðrandi í osti

Ég veit að það eru ekki allir fyrir spínat. Ég persónulega hef meira og meira verið að læra að borða spínat síðustu árin. Mér hefur alltaf þótt það gott kalt í salat en ekki svo þegar það er heitt. Það var ekki fyrr en ég prófaði að fá mér spanakopita, uppskrift hér, sem ég byrjaði að elska spínat í mat. Svo er það líka spínat ídýfan góða sem þið getið fundið hér sem fékk mig til að langa að gera enn fleiri góðar uppskriftir með spínati. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera blanda af spínat og góðum ostum.

Ég elska ferska pastað frá Pastella og þegar ég sá lasagna blöðin frá þeim var ég staðráðin í að gera gott spínatlasagna löðrandi í osti. Ferska pastað frá Pastella fæst í kælinum í Bónus en ekki hjá hinu hefðbundna þurrrkaða pasta. Ef þið eruð lítið fyrir kjöt og langar að prófa eitthvað nýtt mæli ég hiklaust með þessu lasagna. Það er frekar einfalt að gera en ég myndi samt alveg kalla þessa uppskrift dunderí og útkomuna huggunarmat. Best er að leyfa lasagninu að standa á borði eftir eldun í eins og 20 mínútur. Það er einfaldlega betra þannig og sneiðarnar verða fallegri ef það er staðið. Ef það er borið sjóðandi heitt fram á það til að leka eins og svo sem annað lasagna.

Með því að leyfa þvi að standa nær það aðeins að taka sig og úr verða fallegar stífar sneiðar á diski. Afganginn er svo hægt að frysta eða jafnvel taka kalt með í nesti daginn eftir. Uppskriftin er frekar stór svo sniðugt er að bjóða upp á þetta þegar von er á matargestum. Hér þarf ekki mikið meðlæti með en gott ferskt salat og hvítlauksbrauð er fullkomið með því.

Höfundur er María Gomez.

Sjá meira á www.paz.is

Ef þið eruð lítið fyrir kjöt og langar að prófa eitthvað nýtt mæli ég hiklaust með þessu lasagna. Það er frekar einfalt að gera en ég myndi samt alveg kalla þessa uppskrift dunderí og útkomuna huggunarmat.

HRÁEFNI:

Athugið að þessi uppskrift er frekar stór, ef þið viljið hafa hana minni er gott að helminga hana

Spínatlag

 • 30 gr smjör
 • 2 msk extra virgin ólífuolía
 • 1 stór skallotlaukur eða 1/2 bolli c.a 50 gr
 • 6 marin hvítlauksrif
 • salt og pipar
 • 900 gr ferskt spínat

Ostalag

 • 2 egg
 • 120 rifinn parmesan ostur
 • 1 tsk múskat (ekki sleppa gefur svo gott bragð)
 • 900 gr kotasæla

Hvít sósa

 • 60 gr smjör
 • 40 gr hveiti
 • 3 bollar nýmjólk
 • 200 gr rifinn mozzarella ostur
 • 200 gr rifinn cheddar ostur

Annað

Aðferð:

Spínatlag

 1. Hitið olíu og smjör á pönnu
 2. Skerið skalott lauk smátt og merjið hvítlauk
 3. Setjið á pönnuna en hafið vægan hita á svo laukarnir mýkjist og soðni en mega ekki verða brúnir
 4. saltið og piprið og byrjið að bæta spínati smátt og smátt á pönnuna, ykkur gæti fundist magnið af spínatinu líta út fyrir að vera allt of mikið en það mun hjaðna og minnka um meira en helming
 5. Haldið áfram að bæta við spínatinu á pönnuna smátt og smátt þar til það er allt orðið eins og blautt og búið að minnka um meira en helming og saltið aftur ögn og piprið
 6. Færið þá spínatið yfir í sigti yfir skál og ýtið á það með sleif til að ná öllum umfram vökva úr því, látið svo standa áfram í stigtinu meðan ostalag er útbúið.

Ostalag

 1. Blandið öllu innihaldinu saman í blandara eða matvinnsluvél, þ.e eggi, osti, múskat og kotasælu
 2. Ýtið á pulse takkan og maukið þar til verður fallegt og hvítt
 3. setjið svo yfir í stóra skál og saltið örlítið
 4. Reynið að ná sem mestu úr blandaranum en þurfið ekkert að skola hann á milli, setjið næst spínatið úr sigtinu í blandarann og ýtið á pulse þar til er orðið eins og fallegt grænt pesto
 5. Setjið spíantið svo í skálina með kotasælu ostalaginu og hrærið varlega saman með sleif og leggið til hliðar

Hvít sósa

 1. Hitið smjör á pönnu og bætið svo hveitinu út í þegar það er alveg bráðnað
 2. Hrærið vel í allan tímann en leyfið því að sjóða saman í eins og 1 mínútu til að ná úr öllu hveitibragði
 3. Bætið þá 1 bolla af mjólk út í, í einu og hrærið vel í á meðan þar til öll mjólkin er komin í og sósan orðin aðeins þykkari. Saltið þá ögn og piprið
 4. Takið þá af hellunni og bætið út í 200 gr af Mozzarella og 200 gr af cheddar og hrærið þar til þetta er orðin eins og þykk hvít ostasósa

Samsetning á lasagna

 1. Byrjið á að hita ofninn á 200 C°blástur
 2. Setjið svo í stórt eldfast mót hvíta sósu á botninn svo lasagna plötur ofan á
 3. Næst er sett spínat/ostalagið ofan á það og svo hvít sósa og plötur
 4. Haldið svona áfram þar til allt er búið en endið efst á hvítu sósunni og stráið svo Mozzarella rifnum og rifnum cheddar osti yfir allt og gott er að setja smá paprikuduft yfir ostinn en má líka sleppa
 5. Eldið í ofni í 25 mínútur
 6. Takið svo út og leyfið að standa á borði í 20-30 mínutur jafnvel lengur
 7. Berið fram með fersku salati og hvítlauksbrauði

PUNKTAR

Ykkur gæti fundist eins og magnið af spínatinu sé allt of mikið en spínat er mjög fljótt að minnka við eldun svo ekki láta ykkur bregða við magnið. Best er að leyfa þessu lasagna að standa í allavega 20-30 mín á borði áður en þess er neytt en það má einnig bera það fram sjóðandi heitt en þá á það til að leka eins og annað lasagna. Einnig er það gott kalt daginn eftir eins og t.d í nesti.

Við mælum líka með

Settu inn leitarorð og ýttu á enter