Súkkulaði bollakökur með sykurpúða kremi og kexi

Uppskriftin var fengin af:

www.lindaben.is

Súkkulaði bollakökur

Innihald:

 • 100 g hveiti
 • 50 g kakó
 • ¾ tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • ¼ tsk salt
 • 2 stór egg við stofuhita
 • 100 g sykur
 • 100 g púðursykur
 • 80 ml bragðlítil olía
 • 2 tsk vanilludropar
 • 120 ml ab-mjólk

 

Sykurpúða krem:

Innihald:

 • 250 g sykur
 • ½ dl síróp
 • ¾ dl vatn
 • 140 g gerilsneiddar eggjahvítur

 

Skraut:

Innihald:

 • 10 hafra kexkökur, muldar smátt niður
 • 2 pokar Mini Flipper

 

Kökur

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 175°C.
 2. Hrærið saman eggjum, sykrinum, púðursykrinum, vanilludropunum og olíunni.
 3. Í aðra skál blandið saman hveitinu, kakóinu, lyftidufti, matarsóda og salti. Blandið þurrefnunum saman við eggjablönduna til skiptis við ab-mjólkina í nokkrum skrefum. Passið að hræra ekki of mikið saman, heldur stoppa um leið og allt hefur blandast saman.
 4. Setjið pappírs bollakökuform í bollaköku álbakka. Setjið deigið í formið en fyllið formin aðeins til helminga svo kökurnar verði ekki of stórar. Bakið kökurnar í 15-20 mín eða þangað til þær eru bakaðar í gegn. Takið kökurnar úr ofninum og kælið.

 

Krem og skreyting

Aðferð:

 1. Setjið sykur, síróp og vatn í pott. Bræðið sykurinn og hitið blönduna að 117°C (notið nammi hitamæli ef hann er til, annars sjóðiði blönduna í nokkrar mínútur, þetta gengur út á það að engin sykurkorn séu eftir)
 2. Þeytið eggjahvíturnar þangað til þær verða stífar, hellið þá sykursírópinu út í eggjahvíturnar í mjórri bunu og haldið áfram að þeyta í 10 mín eða þangað til þær eru orðnar mjög stífar aftur.
 3. Skiptið kreminu í tvo hluta, setjið annan hlutan í sprautupoka.
 4. Skerið gat ofan í bollakökurnar miðjar og sprautið kreminu ofan í gatið.
 5. Smyrjið hinum hlutanum af kreminu á kökurnar.
 6. Kveikið á ofninum og stillið á grillið. Raðið mini Flipperum á ofnplötu með smjörpappír. Setjið Flipperana inn í ofn og grillið þá í um það bil 3 mín eða þangað til kantarnir eru orðnir fallega brúnir. Það er mikilvægt að fylgjast rosalega vel með þeim inn í ofninum og líta aldrei af þeim, þeir geta ofbakast mjög hratt.
 7. Myljið kexkökurnar fínt niður, setjið mylsnurnar í skál eða á disk og veltið köku köntunum upp úr mylsnunum. Setjið mini Flipper ofan á hverja köku.
Nýjustu uppskriftirnar

Settu inn leitarorð og ýttu á enter