Tacoveisla – Heimagerðar taco pönnukökur með Anamma bitum, ostasósu og hrásalati
Uppskriftin var fengin af:
www.veganistur.is
Þessi dásamlega uppskrift varð til í síðustu viku og sló algjörlega í gegn hjá mér og vinum mínum. Ég hef alltaf verið mikið fyrir taco og finnst virkilega gaman að leika mér með hráefnin. Í vetur komst ég upp á lag með að baka mínar eigin tortilla vefjur og ég reyni að nýta tækifærið og gera það þegar ég hef smá tíma til að dunda mér við matargerðina. Heimabakað brauð nær einhvernveginn aldrei að valda manni vonbrigðum.
Taco hefur uppá svo margt að bjóða því það er algörlega hægt að aðlaga því sínum smekk. Við höfum báðar leikið okkur endalaust með það hvað við setjum í vefjurnar/skeljarnar og hérna að neðan sjáið þið mína uppáhalds samsetningu.
Segja systurnar Helga María og Júlía Sif eigendur www.veganistur.is
Mexíkóskir anamma bitar
Innihald:
- Bitar frá Anamma
- Olía til steikingar
- Laukur
- Santa Maria Taco kryddblanda
- Vatn
Aðferð:
- Steikið bitana og laukinn upp úr olíunni þar til þeir hafa fengið gylltan lit
- Bætið taco kryddinu og vatni við samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
Heimagerð ostasósa
Innihald:
- 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)
- 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur
- 1/2 bolli kasjúhnetur
- 1 tsk gróft sinnep
- 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni
- 3-4 msk næringarger
- 1/2 til 3/4 haframjólk
- salt
Aðferð:
- Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.
- Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)
Hrásalat
Innihald:
- Hvítkál
- Gulrætur
- Vegan majónes
- Örlítið eplaedik
Aðferð:
- Skerið hvítkálið mjög smátt og rífið gulræturnar niður.
- Blandið majónesinu og edikinu saman við.